'Með gleðiraust og helgum hljóm' - í kvöld og miðvikudagskvöld

 Aðventutónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu eru fastur liður í jólaundirbúningnum og ómissandi hjá fjölmörgum unnendum kórsins. Söngsveitin reið á vaðið með jólatónleika sína fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur alla tíð lagt mikið uppúr að bjóða upp á fjölbreytt efni með nýjum og spennandi lögum fyrir hver jól en stemmningin og hátíðleikinn eru ávallt fyrir hendi.

Tónleikarnir eru í Langholtskirkju í kvöld, sunnudag, klukkan 20 og miðvikudagskvöld 9.12. einnig klukkan 20.

Í ár má geta þess að við frumflytjum nýtt og fallegt verk eftir kórstjórann okkar snjalla, Magnús Ragnarsson, sem hann samdi og gaf kórnum í tilefni fimmtíu ára afmælis kórsins. Við flytjum að sjálfsögðu fallegar og sígildar jólaperlur, meðal annars Ó Helga nótt, þar sem einsöngvarinn Ágúst Ólafsson er í aðalhlutverki, hann syngur líka einsöng í gullfallegum færeysku jólasálmi sem við fluttum í fyrra og vakti mikla hrifningu. Við bryddum uppá lögum úr fleiri áttum og syngjum auk færeyskunnar á ensku, rússnesku, latínu og katalónsku. Meðal spennandi efnisliða er verkið Ave Maris Stella eftir norska tónskáldið Trond Kverno sem er krefjandi en hreint ótrúlega grípandi og tilfinningaþrungið verk. Kaflinn Ave Maria úr Náttsöngvum Rachmaninovs er ofarlega á vinsældalista kórfélaga en þetta hlýlega og stórbrotna rússneska verk lætur engan ósnortinn.

Nokkur verka tónleikanna verða flutt með orgelleik Guðnýjar Einarsdóttur sem gerir barokkorgelinu mikla í Langholtskirkju góð skil í glæsilegum útsetningum og bókstaflega fyllir kirkjuna af fögrum hljómum með 70 söngvurum Söngsveitarinnar!

filharmonia_adventa.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband