Myndir frá tónleikunum

Salurinn í Fílharmóníuhöllinni í Wroclaw er svo sem ekki mikið fyrir augað, málaður í daufum gulleitum og grænleitum litum, stólar verða líklega að teljast gulbrúnleitir og sviðið skreytt með gömlum orgelpípum (eða var þetta kannski alvöruorgel?). En hljómburðurinn er góður og ólíku saman að jafna hvað það var betra að syngja þarna en í Háskólabíói. Það var skemmtilegt fyrir óbreyttan kórfélaga að fylgjast með þeirri þróun sem varð frá því að hljóðfæraleikararnir mættu í vinnuna á laugardagsmorgni, eflaust ekki lausir við tortryggni gangvart þessum hóp ofan af Íslandi sem ætlaði að flytja með þeim stórvirki Brahms án þess að kunna orð í pólsku. En það var ekki langt liðið á æfinguna þegar hljómsveitin hafði áttað sig á að fyrir framan hana stóð alvörustjórnandi sem vissi hvað hann vildi og kunni svo vel að ná því fram að ekki þurfti að nota næstum allan þann æfingatíma sem gert hafði verið ráð fyrir. Og frá fyrstu stundu lá leiðin upp á við og reis hæst í lokin í afburðavel heppnuðum tónleikum þar sem kórinn náði að skila sínu besta og hljóðfæraleikurunum þótti augljóslega mjög gaman í vinnunni. Þá spilltu ekki frábærir einsöngvarar en það kemur engum á óvart sem til þeirra þekkja. Og salurinn var næstum orðinn fallegur í lokin þegar vel á þriðja hundrað áheyrendur stóðu upp og kunnu sér ekki læti fyrir fögnuði, "ewige Freude"!

Tónleikum lokið, Magnús þakkar hljóðfæraleikurum

Tónleikum lokið

Glæsilegir einsöngvarar og stjórnandi

Stjórnandi og einsöngvarar

 

Það var engu líkara en hljóðfæraleikararnir væru orðnir undrandi á að komast ekki af sviðinu fyrir fagnaðarlátum sem ætlaði aldrei að linna!

Fagnaðarlæti

 

Þessar myndir tók Jón Bjarnason en fleiri og stærri myndir er að finna í myndaalbúminu "Wroclaw – tónleikar".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæru félagar, 

Þakka öllum fyrir síðast. Það held ég að myndatakan hafi tekist vel hjá bónda mínum en rétt er láta þess getið jafnframt að myndavélin er af bestu gerð og í eigu Guðmundar Hafsteinssonar. Myndasmiðurinn lét ekki sitt eftir liggja.

Bestu kveðjur

Lilja

Lilja (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 18:27

2 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Flott!

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 24.4.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband