Á morgun leggjum við í hann!

Nú er stundin runnin upp. Á morgun heldur hópurinn áleiðis til Krakow og þaðan áfram með rútu til Wroclaw en þangað er ferð okkar heitið. 20. apríl verða svo tónleikar okkar með Lutoslawski sinfóníuhljómsveitinni, en á efnisskránni er Þýsk Sálumessa Brahms, sem kórinn flutti fyrir skemmstu á páskatónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands við mjög góðar undirtektir (sjá myndir og umfjöllun hér). Fyrir þá sem ekki þekkja það er þýska sálumessan í hugum margra eitt af glæsilegustu kórverkum tónlistarbókmenntanna. „Þetta er sálumessa fyrir þá sem eftir lifa“ sagði tónskáldið um verkið sem tryggði honum frægð um alla Evrópu.

Íslenskir einsöngvarar verða með í för og ekki af verri endanum, þau Hulda Björk Garðarsdóttir og Ágúst Ólafsson, en tónleikunum stjórnar Magnús Ragnarsson, kórstjóri Söngsveitarinnar.

SF_logo2

Borgin Wroclaw (borið fram Vross-vá) er í suðvestur-Póllandi, hún er fjórða stærsta borg Póllands og fyrrum höfuðborg hins forna suður-Sílesíuhéraðs. Hún tilheyrði Þýskalandi um alllangt skeið á 19. og 20. öld og var þá nefnd Breslau. Saga borgarinnar á 20. öld endurspeglar viðburðaríka og oft átakanlega nútímasögu Póllands, en borgin mátti þola miklar hörmungar í seinna stríði.  Wroclaw státar af einstaklega fallegri sögulegri miðborg sem gerð var upp af miklum metnaði eftir eyðileggingu stríðsins. 

Mynd af ráðhúsinu og aðaltorginu:

rathaus2

Tónleikaferðin er endapunktur á viðburðaríkum vetri kórsins en þetta er þriðja starfsár kórsins undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Söngsveitin Fílharmónía, sem brátt fagnar hálfrar aldar afmæli, hefur frá upphafi lagt áherslu á flutning viðamikilla sígildra kórverka með hljómsveit. Kórinn hefur frá upphafið átt náið samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Söngsveitin hefur flutt þetta ástsæla verk alls fimm sinnum á Íslandi en kórinn frumflutti verkið hérlendis með Sinfóníuhljómsveitinni á öðru starfsári sínu árið 1961 undir stjórn Róberts A. Ottóssonar. Því má segja að þetta áhrifaríka og heillandi verk eigi sér sérstakan sess í sögu kórsins.

Á þessari síðu reynum við að segja frá því helsta sem á daga okkar drífur!

 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband