12.2.2011 | 18:52
BAROKK í BREIÐHOLTI
Söngsveitin Fílharmónía hefur að þessu sinni valið vortónleikum sínum stað í Fella- og Hólakirkju, fallegri og hlýlegri kirkju með afbragðs hljómburð. Auðvelt er að rata þangað, sjá kort. Kirkjan stendur við jaðar Elliðaárdals rétt handan við Menningarmiðstöðina í Gerðubergi.
Eins og áður hefur komið hér fram verður flutt barokkmessa, Missa votiva, eftir meistarann Jan Dismas Zelenka. Zelenka var uppi á fyrrihluta 18. aldar, fæddist 1679 (sex árum á undan frægari samtímamönnum hans, Johann Sebastian Bach (1685-1750) og Friedrich Handel (1685-1759). Fyrsti opinberi flutningur á verki eftir Zelenka er skráður árið 1704, á tónleikum í Jesúitaskóla sankti Niklásar í Prag. Hann fluttist til Dresden árið 1710 og var víóluleikari við Hofkapelle hljómsveitina, en Dresden var ein helsta menningarborg mið-Evrópu á þessum tíma og sannkölluð barokkperla. Missa votiva er eitt fremsta verk þessa tónskálds sem segja má að hafi verið enduruppgötvað á seinni hluta tuttugustu aldar eftir að nafn og verk hans lágu í gleymskudái í tvær aldir.
Tónleikarnir verða 20. og 23. mars.
Hér er sýnishorn af þessu magnaða verki, fallegur flutningur Collegium 1704 hljómsveitarinnar og samnefnds kammerkór, undir stjórn samlanda Zelenka, tékkans Václav Luks. (Tónlist eftir Zelenka fæst í 12 Tónum, Skólavörðustíg):
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Lífstíll, Tónlist | Breytt 15.2.2011 kl. 23:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.