28.4.2010 | 23:39
Styttist í frumflutning á HEIMSLJÓSI
Nú er óðum að styttast í afmælistónleikana 9. og 11. maí, þegar frumflutt verður Heimsljós - Íslensk sálumessa, eftir Tryggva M. Baldvinsson. Einsöngvararnir, þau Ingibjörg Guðjónsdóttir og Snorri Wium, mættu á kóræfingu í kvöld og ómaði hljómaveislan um allan vesturbæinn!
Verkið hans Tryggva er um 45 mínútur í lengd, í sex köflum. Kórfélagar eru allir sem einn heillaðir af verkinu og mjög spenntir fyrir frumflutninginn. Tryggva tekst snilldarlega að vefa saman tónlist sem endurspeglar ást og fegurð, angurværð, mikla dramatík, þjóðlega hljóma og hugartengsl við íslenska náttúru við sígildan texta úr þessu einu vinsælasta bókmenntaverki Íslendinga fyrr og síðar.
Þá verða einnig fluttir valdir kaflar úr nokkrum þeim stóru verkum sem kórinn hefur flutt á liðnum árum, m.a. úr Carmina Burana, Þýsku sálumessu Brahms, Messias eftir Handel og verkum eftir Mozart, Haydn og Bach.
Einsöngvarar eru eins og fyrr segir Ingibjörg Guðjónsdóttir og Snorri Wium. Sif Tulinius er konsertmeistari 30 manna hljómsveitar og Magnús Ragnarsson stjórnar tónleikunum.
Miðar fást í versluninni 12 Tónum, hjá kórfélögum og við innganginn. Miðaverð er 3500 kr.
Ekki missa af menningarsögulegum atburði!
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Bækur, Tónlist, Trúmál | Breytt 2.5.2010 kl. 11:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.