27.2.2010 | 18:18
Æfingar hafnar á HEIMSLJÓSI - íslenskri sálumessu
Aðalverkefni Söngsveitarinnar Fílharmóníu á þessu 50 ára afmælisári eru veglegir tónleikar 9. og 11. maí þar sem frumflutt verður nýtt íslenskt tónverk sem kórinn pantaði í tilefni af þessum merku tímamótum af Tryggva M. Baldvinssyni.

Að afloknum seinustu tónleikum (sjá fyrri færslu) eru æfingar nú í fullum gangi. Skemmst er frá því að segja að kórfélagar eru mjög spenntir yfir þessu fallega og hrífandi verki Tryggva og er mikil eftirvænting í hópnum að fá að heyra og flytja verkið í heild sinni, með hljómsveit og einsöngvurum.
Tónlistin er skrifuð við texta úr Heimsljósi Laxness og líkt og það snilldarverk endurspeglar tónlistin ólgandi tilfinningum, hrjóstugri og fagurri íslenskri náttúrunni.
Á tónleikunum verða jafnframt fluttir valdir kaflar úr nokkrum þeim fjölda klassískra verka sem Söngsveitin hefur flutt á ferli sínum, yfirlit yfir öll verk sem kórinn hefur flutt má finna á heimasíðu Söngsveitarinnar, en kórinn flutti í fyrsta sinn hér á landi mörg helstu stórverk fyrir kór og hljómsveit, svo sem Carmina Burana, 9. sinfóníu Beethovens, Þýska sálumessu Brahms, og Missa Solemnis eftir Beethoven.
Merkið við þessa daga í dagbókinni!
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Tónlist, Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.