5.2.2010 | 00:10
Lúðrasveit og tveir kórar í eina sæng!
Nú um helgina verður hægt að njóta uppskeru óvenjulegs og skemmtilegs samstarfs, en þá halda saman tónleika Lúðrasveit verkalýðsins, Kór Fella- og Hólakirkju og Söngsveitin Fílharmónía þar sem flutt verður verkið MAGNIFICAT eftir breska tónskáldið John Rutter.
Fyrri tónleikarnir eru laugardaginn 6. febrúar og þeir síðari sunnudaginn 7. febrúar, kl. 17 báða daga, í Fella- og Hólakirkju.
Einsöngvari er Nanna Maria Cortes, sem kemur til landsins gagngert af þessu tilefni, en hún syngur í Óslóaróperunni. Snorri Heimisson er stjórnandi tónleikanna.
Innlit á æfingu var sýnt í 10-fréttum sjónvarps fimmtudagskvöld og má heyra og sjá það hér.
Verkið er skrifað fyrir kór, einsöngvara og hefðbundna hljómsveit, en Einar Jónsson básúnuleikari var fenginn til að útsetja það fyrir kór og lúðrasveit og hljómar sú glænýja útsetning í fyrsta sinn á þessum tónleikum.
John Rutter er fæddur í London árið 1945. Verkið Magnificat var frumflutt árið 1990 í Carnegie Hall í New York og er eitt af glæsilegum stórum verkum Rutter fyrir kór og hljómsveit, en John Rutter má telja í hópi allravinsælustu núlifandi tónskálda Breta. Meðal þekktra verka hans má nefna Gloria, Mass of the Children og Requiem, auk fjölda laga og styttri verka, en nokkur jólalög hans hafa verið flutt af íslenskum kórum. Fjölmörg tónskáld hafa í aldanna rás tónsett helgitextann um lofsöng Maríu guðsmóður en Rutter kveðst hafa fengið innblástur meðal annars úr öðru þekktu Magnificat verki, eftir J.S. Bach. Rutter leitast við í verkinu að lýsa þeirri gleði og sólríku stemmningu sem einkennir svo margar hátíðir kaþólskra í Suður-Evrópu að sumri, til dýrðar Maríu mey. Í verkinu er að finna heillandi laglínur og fjölbreyttan og grípandi ryþma, ofið saman í mikla hljómaveislu sem nýtur sín sérstaklega vel í þessari nýju útsetningu. Verkið skiptist í 7 kafla: Magnificat anima mea, Of a rose, a lovely Rose, Quia fecit mihi magna, Et misericordia, Fecit potentiam, Esurientes og Gloria Patri.
Miðar eru seldir við innganginn og í versluninni 12 Tónum, Skólavörðustíg, en miðaverð er 2.500 kr.
Undirbúningur fyrir tónleikana hófst snemma síðasta haust og liggja miklar æfingar að baki þessum flutningi. Samstarf tveggja kóra og lúðrasveitar er að sönnu óvanalegt, og óvíst að jafn viðamikið verk og þetta hafi verið flutt með þátttöku lúðrasveitar. Samstarfið hefur gengið mjög vel og teljum við sem að verkinu komum að áheyrendum muni koma á óvart hversu vel kórarnir tveir og lúðrasveitin hljóma saman.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Tónlist, Trúmál | Breytt 27.2.2010 kl. 18:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.