Færsluflokkur: Menning og listir

Æfingar hafnar á HEIMSLJÓSI - íslenskri sálumessu

Aðalverkefni Söngsveitarinnar Fílharmóníu á þessu 50 ára afmælisári eru veglegir tónleikar 9. og 11. maí þar sem frumflutt verður nýtt íslenskt tónverk sem kórinn pantaði í tilefni af þessum merku tímamótum af Tryggva M. Baldvinssyni.  

Tryggvi M. Baldvinsson

Að afloknum seinustu tónleikum (sjá fyrri færslu) eru æfingar nú í fullum gangi. Skemmst er frá því að segja að kórfélagar eru mjög spenntir yfir þessu fallega og hrífandi verki Tryggva og er mikil eftirvænting í hópnum að fá að heyra og flytja verkið í heild sinni, með hljómsveit og einsöngvurum.

Tónlistin er skrifuð við texta úr Heimsljósi Laxness og líkt og það snilldarverk endurspeglar tónlistin ólgandi tilfinningum, hrjóstugri og fagurri íslenskri náttúrunni.

Á tónleikunum verða jafnframt fluttir valdir kaflar úr nokkrum þeim fjölda klassískra verka sem Söngsveitin hefur flutt á ferli sínum, yfirlit yfir öll verk sem kórinn hefur flutt má finna á heimasíðu Söngsveitarinnar, en kórinn flutti í fyrsta sinn hér á landi mörg helstu stórverk fyrir kór og hljómsveit, svo sem Carmina Burana, 9. sinfóníu Beethovens, Þýska sálumessu Brahms, og Missa Solemnis eftir Beethoven.

Merkið við þessa daga í dagbókinni!

 


Lúðrasveit og tveir kórar í eina sæng!

Nú um helgina verður hægt að njóta uppskeru óvenjulegs og skemmtilegs samstarfs, en þá halda saman tónleika Lúðrasveit verkalýðsins, Kór Fella- og Hólakirkju og Söngsveitin Fílharmónía þar sem flutt verður verkið MAGNIFICAT eftir breska tónskáldið John Rutter.

Fyrri tónleikarnir eru laugardaginn 6. febrúar og þeir síðari sunnudaginn 7. febrúar, kl. 17 báða daga, í Fella- og Hólakirkju.

Einsöngvari er Nanna Maria Cortes, sem kemur til landsins gagngert af þessu tilefni, en hún syngur í Óslóaróperunni. Snorri Heimisson er stjórnandi tónleikanna.

Innlit á æfingu var sýnt í 10-fréttum sjónvarps fimmtudagskvöld og má heyra og sjá það hér.

Verkið er skrifað fyrir kór, einsöngvara og hefðbundna hljómsveit, en Einar Jónsson básúnuleikari var fenginn til að útsetja það fyrir kór og lúðrasveit og hljómar sú glænýja útsetning í fyrsta sinn á þessum tónleikum. 

John Rutter er fæddur í London árið 1945. Verkið Magnificat var frumflutt árið 1990 í Carnegie Hall í New York og er eitt af glæsilegum stórum verkum Rutter fyrir kór og hljómsveit, en John Rutter má telja í hópi allravinsælustu núlifandi tónskálda Breta. Meðal þekktra verka hans má nefna ‘Gloria’, ‘Mass of the Children’ og ‘Requiem’, auk fjölda laga og styttri verka, en nokkur jólalög hans hafa verið flutt af íslenskum kórum. Fjölmörg tónskáld hafa í aldanna rás tónsett helgitextann um lofsöng Maríu guðsmóður en Rutter kveðst hafa fengið innblástur meðal annars úr öðru þekktu ‘Magnificat’ verki, eftir J.S. Bach.  Rutter leitast við í verkinu að lýsa þeirri gleði og sólríku stemmningu sem einkennir svo margar hátíðir kaþólskra í Suður-Evrópu að sumri, til dýrðar Maríu mey.  Í verkinu er að finna heillandi laglínur og fjölbreyttan og grípandi ryþma, ofið saman í mikla hljómaveislu sem nýtur sín sérstaklega vel í þessari nýju útsetningu. Verkið skiptist í 7 kafla: Magnificat anima mea, Of a rose, a lovely Rose, Quia fecit mihi magna, Et misericordia, Fecit potentiam, Esurientes og Gloria Patri.

Miðar eru seldir við innganginn og í versluninni 12 Tónum, Skólavörðustíg, en miðaverð er 2.500 kr.

Undirbúningur fyrir tónleikana hófst snemma síðasta haust og liggja miklar æfingar að baki þessum flutningi.  Samstarf tveggja kóra og lúðrasveitar er að sönnu óvanalegt, og óvíst að jafn viðamikið verk og þetta hafi verið flutt með þátttöku lúðrasveitar.  Samstarfið hefur gengið mjög vel og teljum við sem að verkinu komum að áheyrendum muni koma á óvart hversu vel kórarnir tveir og lúðrasveitin hljóma saman.

 

magnificat-3.jpg

 


'Með gleðiraust og helgum hljóm' - í kvöld og miðvikudagskvöld

 Aðventutónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu eru fastur liður í jólaundirbúningnum og ómissandi hjá fjölmörgum unnendum kórsins. Söngsveitin reið á vaðið með jólatónleika sína fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur alla tíð lagt mikið uppúr að bjóða upp á fjölbreytt efni með nýjum og spennandi lögum fyrir hver jól en stemmningin og hátíðleikinn eru ávallt fyrir hendi.

Tónleikarnir eru í Langholtskirkju í kvöld, sunnudag, klukkan 20 og miðvikudagskvöld 9.12. einnig klukkan 20.

Í ár má geta þess að við frumflytjum nýtt og fallegt verk eftir kórstjórann okkar snjalla, Magnús Ragnarsson, sem hann samdi og gaf kórnum í tilefni fimmtíu ára afmælis kórsins. Við flytjum að sjálfsögðu fallegar og sígildar jólaperlur, meðal annars Ó Helga nótt, þar sem einsöngvarinn Ágúst Ólafsson er í aðalhlutverki, hann syngur líka einsöng í gullfallegum færeysku jólasálmi sem við fluttum í fyrra og vakti mikla hrifningu. Við bryddum uppá lögum úr fleiri áttum og syngjum auk færeyskunnar á ensku, rússnesku, latínu og katalónsku. Meðal spennandi efnisliða er verkið Ave Maris Stella eftir norska tónskáldið Trond Kverno sem er krefjandi en hreint ótrúlega grípandi og tilfinningaþrungið verk. Kaflinn Ave Maria úr Náttsöngvum Rachmaninovs er ofarlega á vinsældalista kórfélaga en þetta hlýlega og stórbrotna rússneska verk lætur engan ósnortinn.

Nokkur verka tónleikanna verða flutt með orgelleik Guðnýjar Einarsdóttur sem gerir barokkorgelinu mikla í Langholtskirkju góð skil í glæsilegum útsetningum og bókstaflega fyllir kirkjuna af fögrum hljómum með 70 söngvurum Söngsveitarinnar!

filharmonia_adventa.jpg

 


Söngsveitin 50 ára!

Söngsveitin Fílharmónía heldur á þessu starfsári uppá 50 ára afmæli sitt. Kórinn hefur á þessari hálfu öld frumflutt mörg af helstu kórverkum tónbókmenntanna. Það var um vorið 1959 sem undirbúningur að starfsemi Söngvseitarinnar hófst en helsti hvatamaður þess var vel menntaður og hæfileikaríkur tónlistarmaður, Róbert Abraham Ottósson. Fyrstu tónleikar kórsins voru í maí 1960 þegar Söngsveitin frumflutti ásamt Þjóðleikhúskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands Carmina Burana eftir Carl Orff.

Æfing vorið 2009

Frá æfingu kórsins í Langholtskirkju í mars sl.

Haldið verður upp á hálfrar aldar afmælið með viðburðaríkri og glæsilegri dagskrá þar sem helstu verkefni verða Misa Criolla eftir Ariel Ramírez og Fjölmenningarmessa eftir Yamandú Pontvik sem fluttar verða á tónleikum í haust, aðventutónleikar í desember, Magnificat eftir John Rutter verður flutt í febrúar í samstarfi við Lúðrasveit verkalýðsins og kór Fella- og Hólakirkju og hápunktur starfsársins eru afmælistónleikar í vor þar sem frumflutt verður stórt verk eftir Tryggva M. Baldvinsson ásamt köflum úr ýmsum stórverkum sem Söngsveitin hefur sungið. Verk Tryggva er fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, og texti er meðal annars fenginn úr Heimsljósi Halldórs Laxness.

Kórstjóri Söngsveitarinnar er Magnús Ragnarsson.

RADDPRÓF fyrir nýja félaga verða sunnudaginn 30. ágúst kl. 16, í Melaskóla. Kórreynsla er æskileg. Kórinn æfir á miðvikudagskvöldum frá kl 19 til 22 auk nokkurra laugardaga. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu kórsins á www.filharmonia.mi.is.


Um Gaudeamus og Brahms - 2

Það skal víst leiðrétt sem lesa mátti úr fyrri færslu að Johannes Brahms hafi sjálfur samið Gaudeamus igitur. Svo er ekki, enda lagið ævafornt og ekki vitað hver það samdi, en rétt er að Brahms fékk laglínuna að láni í lokakafla akademíska forleiksins sem vissulega var frumfluttur í Wroclaw eins og áður sagði.  

Sums staðar er því haldið fram að Gaudeamus sé upprunninn á 13. öld en engar heimildir eru í raun um það aðrar en gamalt handrit sem sýnir ljóðlínur mjög svipaðar öðru og þriðja erindi Gaudeamus, en ljóðinu fylgja nótur við allt annað lag og orðin Gaudeamus Igitur koma hvergi fyrir.

skjöldurLagið var vel þekkt í Þýskalandi á 18. öld, en textinn á latínu eins og hann þekkist nú var birtur í sönghefti C. W. Kindleben árið 1781, 100 árum fyrir verk Brahms. Blogghöfundi hefur ekki tekist að finna hver samdi íslenska textann, viti einhver svarið er vel þegið að fá það í athugasemd við færsluna.

Á myndinni til hægri sést skjöldur úr Wroclaw háskóla þar sem Brahms trónir efstur á lista margra merkra tónlistarmanna sem hafa orðið heiðursdoktorar við skólann.

Að neðan er svo önnur mynd af tónlistarsalnum þar sem verk Brahms var frumflutt. Þessi salur var gjöreyðilagður í stríðinu en hefur verið nostursamlega endurgerður í sem upprunanlegastri mynd.músiksalurinn

Hátíðarsalurinn frægi sem minnst er á í myndatextum slapp hins vega algjörlega undan sprengingum og er því alveg upprunanlegur og mikið stolt Wroclawbúa. Ekki amalegt að taka við útskriftarskírteini í svona salarkynnum, Háskólabíó bliknar í samanburði...

hátíðarsalurinn


Dvergar og dömubindi - andóf gegn alræðisstjórn

Um álfana í Wroclaw

tveir álfarGlöggir lesendur sem hafa skoðað myndir síðunnar gaumgæfilega hafa vafalaust tekið eftir nokkrum myndum af frægum álfastyttum Wroclawborgar. Einhver kann að halda að þessar penu og krúttlegu bronsstyttur séu bara hugdetta einhvers hugmyndasmiðs ferðamannaskrifstofu borgarinnar, skraut fyrir túrista í stíl við litríku uppgerðu húsin á aðaltorginu og gotneska skrautið sem þekur gamla ráðhúsið. Vissulega eru álfarnir það líka, en hafa þó skemmtilega sögulega skírskotun til síðustu áratuga 20. aldar.

hótelálfurinnWaldemar Fydrych hét ungur hugmyndaríkur stúdent í listasögu við Wroclaw háskóla á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Fydrych átti þátt í að stofna Samstöðu-heyfingu meðal stúdenta, og var einn af skipuleggjendum mikillar friðargöngu 1981. Á tímabilinu frá desember 1981 til júlí 1983 voru sett herlög í Póllandi til að reyna að kæfa vaxandi andóf gegn stjórnvöldum, en þá varð Fydrych frægur fyrir veggmyndir sínar (graff) af einmitt álfum sem hann málaði jafnharðan þar sem stjórnvöld höfðu málað yfir pólitísk slagorð krotuð á veggi.

fangaálfurÁ næstu árum beitti Fydrych ýmsum óhefðbundnum friðsamlegum aðferðum í pólitískri baráttu sinni og var einn af höfuðpaurum "appelsínugulu hreyfingarinnar", en hreyfingin var einn af litríkari öngum andófs almennings gegn hinni steinrunnu og hægfara deyjandi alræðisstjórn.

Ein álfastytta sem er nokkuð ólík hinum og við vitum ekki hvort telst hluti af þessum fimmtán er sérstaklega tileinkuð Fydrych og appelsínugulu hreyfingunni. Sú stendur á risavöxnum þumli.

Fydrych á að hafa skipulagt kröfugöngu þar sem hann klæddist álfabúningi og krafðist frelsi jólasveinsins, en sveinki hafði verið bannaður af stjórnvöldum sem siðspillt myndbirting kapitalismans. Í annarri uppákomu, í mars 1988, dreifði Fydrych dömubindum, sem voru munaðarvara og mjög erfitt að nálgast á þessum tímum. Fyrir þetta athæfi (óvirðingu við stjórnvöld?) var hann fangelsaður! Frelsissviptingu hans var harðlega mótmælt og var honum sleppt eftir þrjá mánuði.

varðálfurEn aftur að bronsdvergunum í Wroclaw, þeir eru 15 talsins og voru settir upp 2005, gerðir af listamanninum og Wroclaw búanum Tomasz Moczek. Sagt er að þetta séu nútímalegar styttur búnar GPS staðsetningarbúnaði, en ein þeirra á víst samt að hafa horfið. Við fundum ekki allar, en hér má sjá nokkrar þeirra.

álfur9Sagt er að Fydrych og stuðningsmenn hans hafi stutt andófsheyfinguna í Úkraínu 2004, "Appelsínugulu byltinguna", og að litur þeirrar hreyfingar eigi þannig rætur að rekja til friðar- og húmor-andófsmannanna í Póllandi frá því 20 árum áður. Fydrych bauð sig fram sem borgarstjóri í Varsjá 2002 og 2006 en hlaut dræman stuðning.

 

 

enn einn dvergur

fataálfur2Þessi fannst við Odra ánna, á nærklæðunum einum saman. Þegar nánar var að gáð var sá stutti að þvo fötin sín.

fataálfur3

 

 


Minningar og myndir frá Póllandi

dreki_skuggamyndFleiri myndir hafa nú verið settar inn í myndaalbúmin úr þessari vel heppnuðu ferð okkar til Póllands (krækjur hér beggja megin). Það sem upp úr stendur í hug þess sem hér bloggar er hversu glæsilegir tónleikar okkar voru og hvað borgirnar tvær sem við komum til eru báðar fallegar og vinalegar. Við höfðum dagpart til að ganga um Krakow í fylgd góðra leiðsögumanna, þá borg þekkja margir Íslendingar enda vinsæll áfangastaður stuttra borgarferða.hallargardur  Meðal annars var skoðaður hinn glæsilegi Wawel kastali sem gnæfir yfir borgina og nokkur ættjarðarlög sungin í fallegum hallargarði.

 Wroclaw þekktu fæst okkar fyrir þessa ferð, en eins og sjá má á myndunum er hún einstaklega falleg og snyrtileg borg. Mættu borgaryfirvöld í Reykjavík taka sér til fyrirmyndar hversu vel er hlúð að elsta hluta borgarinnar og gömlum byggingum vel viðhaldið.


Í fótspor Brahms - fróðleikur um Gaudeamus

Við fengum tækifæri til að skoða gömlu aðalbyggingu hins fornfræga háskóla í Wroclaw sem er ríflega 300 ára gamall.haskolinn

Þar er að finna hinn ríkulega skreytta hátíðarsal Aula Leopoldina, en nokkrar myndir þaðan sáust í eldri færslu. Þessi salur slapp alveg undan skemmdum í stríðinu og er upplifun að ganga þar inn en salurinn er einstakur minnisvarði um uppruna skólans á barokk tímabilinu.

Annar fallegur en aðeins látlausari salur er á neðri hæð byggingarinnar en sá salur var og er mikið notaður til tónleikahalds.  Árið 1879 var Johannes Brahms sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við háskólann. Hann þakkaði fyrir sig með því að semja akademískan forleik og var verkið frumflutt árið 1881 einmitt í þessum sal. Lokakafli þessa verks hefur síðan orðið þekktur sem hátíðarsöngur stúdenta um heim allan - Gaudeamus Igitur, Kætumst meðan kostur er. Að sjálfsögðu söng Söngsveitin þetta lag í salnum þar sem það var frumflutt, bæði á frummáli og íslensku! sungið í háskólanum 2


Myndir frá tónleikunum

Salurinn í Fílharmóníuhöllinni í Wroclaw er svo sem ekki mikið fyrir augað, málaður í daufum gulleitum og grænleitum litum, stólar verða líklega að teljast gulbrúnleitir og sviðið skreytt með gömlum orgelpípum (eða var þetta kannski alvöruorgel?). En hljómburðurinn er góður og ólíku saman að jafna hvað það var betra að syngja þarna en í Háskólabíói. Það var skemmtilegt fyrir óbreyttan kórfélaga að fylgjast með þeirri þróun sem varð frá því að hljóðfæraleikararnir mættu í vinnuna á laugardagsmorgni, eflaust ekki lausir við tortryggni gangvart þessum hóp ofan af Íslandi sem ætlaði að flytja með þeim stórvirki Brahms án þess að kunna orð í pólsku. En það var ekki langt liðið á æfinguna þegar hljómsveitin hafði áttað sig á að fyrir framan hana stóð alvörustjórnandi sem vissi hvað hann vildi og kunni svo vel að ná því fram að ekki þurfti að nota næstum allan þann æfingatíma sem gert hafði verið ráð fyrir. Og frá fyrstu stundu lá leiðin upp á við og reis hæst í lokin í afburðavel heppnuðum tónleikum þar sem kórinn náði að skila sínu besta og hljóðfæraleikurunum þótti augljóslega mjög gaman í vinnunni. Þá spilltu ekki frábærir einsöngvarar en það kemur engum á óvart sem til þeirra þekkja. Og salurinn var næstum orðinn fallegur í lokin þegar vel á þriðja hundrað áheyrendur stóðu upp og kunnu sér ekki læti fyrir fögnuði, "ewige Freude"!

Tónleikum lokið, Magnús þakkar hljóðfæraleikurum

Tónleikum lokið

Glæsilegir einsöngvarar og stjórnandi

Stjórnandi og einsöngvarar

 

Það var engu líkara en hljóðfæraleikararnir væru orðnir undrandi á að komast ekki af sviðinu fyrir fagnaðarlátum sem ætlaði aldrei að linna!

Fagnaðarlæti

 

Þessar myndir tók Jón Bjarnason en fleiri og stærri myndir er að finna í myndaalbúminu "Wroclaw – tónleikar".


Á heimaslóðum klezmer tónlistarinnar

Magda violuleikariÞessi voru svakalega flott! Heilluðu okkur með klezmer tónlist á veitingastaðnum Klezmer hois í gamla gyðingahverfinu, Kazimierz, í Krakow. Söngkonan með seiðandi djúpa altrödd spilaði jafnframt snilldarlega á víólu, sem skýrir væntanlega nafn bandsins Quartet Klezmer Trio. Meðleikarar hennar á harmónikku og bassa ekki síðri, sýndu frábært samspil og mikla tilfinningu. Verst að þau voru ekki vöruð við fyrirfram að þau voru með 70 eldheita klezmer aðdáendur í salnum og kláruðust 10 eintökin af geisladisk þeirra á augabragði!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband