Færsluflokkur: Tónlist

Æfingar hafnar á HEIMSLJÓSI - íslenskri sálumessu

Aðalverkefni Söngsveitarinnar Fílharmóníu á þessu 50 ára afmælisári eru veglegir tónleikar 9. og 11. maí þar sem frumflutt verður nýtt íslenskt tónverk sem kórinn pantaði í tilefni af þessum merku tímamótum af Tryggva M. Baldvinssyni.  

Tryggvi M. Baldvinsson

Að afloknum seinustu tónleikum (sjá fyrri færslu) eru æfingar nú í fullum gangi. Skemmst er frá því að segja að kórfélagar eru mjög spenntir yfir þessu fallega og hrífandi verki Tryggva og er mikil eftirvænting í hópnum að fá að heyra og flytja verkið í heild sinni, með hljómsveit og einsöngvurum.

Tónlistin er skrifuð við texta úr Heimsljósi Laxness og líkt og það snilldarverk endurspeglar tónlistin ólgandi tilfinningum, hrjóstugri og fagurri íslenskri náttúrunni.

Á tónleikunum verða jafnframt fluttir valdir kaflar úr nokkrum þeim fjölda klassískra verka sem Söngsveitin hefur flutt á ferli sínum, yfirlit yfir öll verk sem kórinn hefur flutt má finna á heimasíðu Söngsveitarinnar, en kórinn flutti í fyrsta sinn hér á landi mörg helstu stórverk fyrir kór og hljómsveit, svo sem Carmina Burana, 9. sinfóníu Beethovens, Þýska sálumessu Brahms, og Missa Solemnis eftir Beethoven.

Merkið við þessa daga í dagbókinni!

 


Lúðrasveit og tveir kórar í eina sæng!

Nú um helgina verður hægt að njóta uppskeru óvenjulegs og skemmtilegs samstarfs, en þá halda saman tónleika Lúðrasveit verkalýðsins, Kór Fella- og Hólakirkju og Söngsveitin Fílharmónía þar sem flutt verður verkið MAGNIFICAT eftir breska tónskáldið John Rutter.

Fyrri tónleikarnir eru laugardaginn 6. febrúar og þeir síðari sunnudaginn 7. febrúar, kl. 17 báða daga, í Fella- og Hólakirkju.

Einsöngvari er Nanna Maria Cortes, sem kemur til landsins gagngert af þessu tilefni, en hún syngur í Óslóaróperunni. Snorri Heimisson er stjórnandi tónleikanna.

Innlit á æfingu var sýnt í 10-fréttum sjónvarps fimmtudagskvöld og má heyra og sjá það hér.

Verkið er skrifað fyrir kór, einsöngvara og hefðbundna hljómsveit, en Einar Jónsson básúnuleikari var fenginn til að útsetja það fyrir kór og lúðrasveit og hljómar sú glænýja útsetning í fyrsta sinn á þessum tónleikum. 

John Rutter er fæddur í London árið 1945. Verkið Magnificat var frumflutt árið 1990 í Carnegie Hall í New York og er eitt af glæsilegum stórum verkum Rutter fyrir kór og hljómsveit, en John Rutter má telja í hópi allravinsælustu núlifandi tónskálda Breta. Meðal þekktra verka hans má nefna ‘Gloria’, ‘Mass of the Children’ og ‘Requiem’, auk fjölda laga og styttri verka, en nokkur jólalög hans hafa verið flutt af íslenskum kórum. Fjölmörg tónskáld hafa í aldanna rás tónsett helgitextann um lofsöng Maríu guðsmóður en Rutter kveðst hafa fengið innblástur meðal annars úr öðru þekktu ‘Magnificat’ verki, eftir J.S. Bach.  Rutter leitast við í verkinu að lýsa þeirri gleði og sólríku stemmningu sem einkennir svo margar hátíðir kaþólskra í Suður-Evrópu að sumri, til dýrðar Maríu mey.  Í verkinu er að finna heillandi laglínur og fjölbreyttan og grípandi ryþma, ofið saman í mikla hljómaveislu sem nýtur sín sérstaklega vel í þessari nýju útsetningu. Verkið skiptist í 7 kafla: Magnificat anima mea, Of a rose, a lovely Rose, Quia fecit mihi magna, Et misericordia, Fecit potentiam, Esurientes og Gloria Patri.

Miðar eru seldir við innganginn og í versluninni 12 Tónum, Skólavörðustíg, en miðaverð er 2.500 kr.

Undirbúningur fyrir tónleikana hófst snemma síðasta haust og liggja miklar æfingar að baki þessum flutningi.  Samstarf tveggja kóra og lúðrasveitar er að sönnu óvanalegt, og óvíst að jafn viðamikið verk og þetta hafi verið flutt með þátttöku lúðrasveitar.  Samstarfið hefur gengið mjög vel og teljum við sem að verkinu komum að áheyrendum muni koma á óvart hversu vel kórarnir tveir og lúðrasveitin hljóma saman.

 

magnificat-3.jpg

 


'Með gleðiraust og helgum hljóm' - í kvöld og miðvikudagskvöld

 Aðventutónleikar Söngsveitarinnar Fílharmóníu eru fastur liður í jólaundirbúningnum og ómissandi hjá fjölmörgum unnendum kórsins. Söngsveitin reið á vaðið með jólatónleika sína fyrir rúmum tveimur áratugum og hefur alla tíð lagt mikið uppúr að bjóða upp á fjölbreytt efni með nýjum og spennandi lögum fyrir hver jól en stemmningin og hátíðleikinn eru ávallt fyrir hendi.

Tónleikarnir eru í Langholtskirkju í kvöld, sunnudag, klukkan 20 og miðvikudagskvöld 9.12. einnig klukkan 20.

Í ár má geta þess að við frumflytjum nýtt og fallegt verk eftir kórstjórann okkar snjalla, Magnús Ragnarsson, sem hann samdi og gaf kórnum í tilefni fimmtíu ára afmælis kórsins. Við flytjum að sjálfsögðu fallegar og sígildar jólaperlur, meðal annars Ó Helga nótt, þar sem einsöngvarinn Ágúst Ólafsson er í aðalhlutverki, hann syngur líka einsöng í gullfallegum færeysku jólasálmi sem við fluttum í fyrra og vakti mikla hrifningu. Við bryddum uppá lögum úr fleiri áttum og syngjum auk færeyskunnar á ensku, rússnesku, latínu og katalónsku. Meðal spennandi efnisliða er verkið Ave Maris Stella eftir norska tónskáldið Trond Kverno sem er krefjandi en hreint ótrúlega grípandi og tilfinningaþrungið verk. Kaflinn Ave Maria úr Náttsöngvum Rachmaninovs er ofarlega á vinsældalista kórfélaga en þetta hlýlega og stórbrotna rússneska verk lætur engan ósnortinn.

Nokkur verka tónleikanna verða flutt með orgelleik Guðnýjar Einarsdóttur sem gerir barokkorgelinu mikla í Langholtskirkju góð skil í glæsilegum útsetningum og bókstaflega fyllir kirkjuna af fögrum hljómum með 70 söngvurum Söngsveitarinnar!

filharmonia_adventa.jpg

 


Söngsveitin 50 ára!

Söngsveitin Fílharmónía heldur á þessu starfsári uppá 50 ára afmæli sitt. Kórinn hefur á þessari hálfu öld frumflutt mörg af helstu kórverkum tónbókmenntanna. Það var um vorið 1959 sem undirbúningur að starfsemi Söngvseitarinnar hófst en helsti hvatamaður þess var vel menntaður og hæfileikaríkur tónlistarmaður, Róbert Abraham Ottósson. Fyrstu tónleikar kórsins voru í maí 1960 þegar Söngsveitin frumflutti ásamt Þjóðleikhúskórnum og Sinfóníuhljómsveit Íslands Carmina Burana eftir Carl Orff.

Æfing vorið 2009

Frá æfingu kórsins í Langholtskirkju í mars sl.

Haldið verður upp á hálfrar aldar afmælið með viðburðaríkri og glæsilegri dagskrá þar sem helstu verkefni verða Misa Criolla eftir Ariel Ramírez og Fjölmenningarmessa eftir Yamandú Pontvik sem fluttar verða á tónleikum í haust, aðventutónleikar í desember, Magnificat eftir John Rutter verður flutt í febrúar í samstarfi við Lúðrasveit verkalýðsins og kór Fella- og Hólakirkju og hápunktur starfsársins eru afmælistónleikar í vor þar sem frumflutt verður stórt verk eftir Tryggva M. Baldvinsson ásamt köflum úr ýmsum stórverkum sem Söngsveitin hefur sungið. Verk Tryggva er fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, og texti er meðal annars fenginn úr Heimsljósi Halldórs Laxness.

Kórstjóri Söngsveitarinnar er Magnús Ragnarsson.

RADDPRÓF fyrir nýja félaga verða sunnudaginn 30. ágúst kl. 16, í Melaskóla. Kórreynsla er æskileg. Kórinn æfir á miðvikudagskvöldum frá kl 19 til 22 auk nokkurra laugardaga. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu kórsins á www.filharmonia.mi.is.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband